Samgöngustofa birti í dag rökstuðning fyrir ákvörðun sinni að svipta ekki bílaleiguna Procar rekstrarleyfi en forsvarsmenn bílaleigunnar voru upplýstir um ákvörðunina í byrjun maímánaðar.
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, gagnrýndi niðurstöðuna í dag og sagði hana fela í sér skýr skilaboð um að í lagi sé að svindla á Íslandi.
Á vef Samgöngustofu segir að vinna Samgöngustofu í málefnum ökutækjaleiga vegna mögulegra breytinga á kílómetratölu akstursmæla ökutækja standi enn yfir. Stofnunin óskaði eftir upplýsingum og gögnum frá öllum ökutækjaleigum með starfsleyfi en þær eru alls 127 talsins.
Samgöngustofa gerir einnig greinarmun á starfsemi ökutækjaleigu í samræmi við lög um ökutækjaleigur á grundvelli starfsleyfis og hins vegar endursölu ökutækja á almennum markaði en Samgöngustofa hefur eingöngu valdheimildir gagnvart hinu fyrrnefnda.
Í tilfelli Procar taldi Samgöngustofa bílaleiguna hafa „sannanlega“ bætt úr annmörkum með því að bæta innra eftirlit til þess að þetta myndi ekki endurtaka sig og því hafi ekki verið lagaheimild fyrir hendi til þess að svipta hana rekstrarleyfinu.
Þá hefur Samgöngustofa sent öll gögn málsins til lögreglu sem hefur málið nú undir höndum.
Samgöngustofa útskýrir hvers vegna Procar var ekki svipt leyfi

Tengdar fréttir

Segir niðurstöðu í máli Procar sýna að í lagi sé að svindla á Íslandi
Jóhannes Þór Skúlason, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar segir að niðurstaða Samgöngustofu í máli bílaleigunnar Procar þess efnis að hún haldi starfsleyfi sínu feli í sér skýr skilaboð um að í lagi sé að svindla á Íslandi.

Procar heldur starfsleyfinu
Bílaleigan Procar verður ekki svipt starfsleyfi en samgöngustofa mat tillögur fyrirtækisins að útbótum fullnægjandi.