Skoðun

Sorry, en þú ert bara ekki nógu fullkomin fyrir þessa íbúð

Sigríður Karlsdóttir skrifar
Ég er á leigumarkaðnum. Það hljómar ef til vill furðulega, en hluti af mér elskar það Við fjölskyldan sjáum lífið sem tækifæri og tækifærin eru stundum út um allt og þá er gott að geta flutt með tiltölulega litlu veseni.

Þrátt fyrir að við hjónin vinnum Georg Bjarnfreðarson í háskólagráðukeppninni, þá getum við ekki lagað vask þó lífið lægi við. Við erum með of margar háskólagráður í að gera við vindskeiðar og mér finnst ekkert sérstaklega gaman að skoða myndir af eldhúsinnréttingum eða labba um og leita að blöndunartækjum. Hef svo margt annað við tímann minn að gera og ef til vill er ég einhverskonar letidýr.

Þess vegna hentar leigumarkaðurinn okkur mjög vel og erum við til í að borga aðeins meira og hef þá kannski tíma til að klappa kettinum.

Ég hef sjálf byggt hús og skoða reglulega lán og afborganir. Ég er ekki með háskólagráðu í viðskiptafræði, en ég veit hvað kostar að reka húsnæði með öllum rekstrarkostnaði. Það er munur á kostnaði og einskærum gróða.

Nú er ég að leita að íbúð. Ég er svo sem sjóuð í þessu og þekki vel til menningarinnar sem ríkir í þessum heimi. Ég ligg á síðunum og skoða. Af þvi ég hef áhuga á allskonar menningu þá ligg ég stundum tímunum saman og skoða mynstur leigusala og leigjenda. Les reynslusögur og fer viljandi inn í sérkennilegar aðstæður af einskærri forvitni.

Og Herragúd hvað menningin hefur breyst.

Fyrir utan verðlagið, sem er gjarnan eiginhagsmuna fnykur af, þá eru kröfurnar orðnar stjarnfræðilegar.

„Sko, við setjum 250.000 á íbúðina í staðinn fyrir 270.00 ef þið reitið hérna arfann fyrir framan stéttina vikulega, lagið allt sem bilar sjálf og skiptið um baðinnréttingu og málið og …. og já kötturinn má ekki veiða fugla. Við búum á efri hæðinni og fylgjumst með.“

„Hérna, þið fáið allt nema þetta herbergi hérna. Ég þarf að koma hérna tvisvar sinnum í mánuði og ná í dót sem ég mun geyma í einu herberginu. Ég er með aukalykla.“

„Það má ekki vera með umgang eftir kl. 22, því við erum yfirleitt farin að sofa þá og það heyrist svo á milli.“

Kæru leigusalar.

Leigjendur eru fólk. Með þarfir eins og þið. Ef kötturinn veiðir fugl, sem er afar sorglegt í sjálfu sér, þá taka þeir afleiðingunum. Ef þeir vilja dansa salsa klukkan 10:30 þá mega þeir það. Þetta er heimili þeirra. Þau er ekki bara þáttur í peningamaskínu.

Það er þetta með sameiginlegu velferðina sem er svo dásamleg. Ef einum fjölskyldumeðlim líður illa í fjölskyldunni hefur það áhrif á hina. Ef einum einstakling líður illa í vinnunni, þá hefur það áhrif á einhverja aðra. Ef einhver prósenta landsmanna finnur ekki húsnæði þar sem þeir geta bara lifað sínu lífi (svo framarlega sem þeir ganga vel um og skaða ekki aðra) þá hefur það áhrif á aðra.

Ef við færum að hugsa meira um heildina frekar en dvelja í einstaklingshyggjunni, þá vitum við alveg að okkur öllum mun liða betur.

Ég veit allavega þegar ég geri góðverk eða hjálpa öðrum, líður mér mjög vel. Sérstaklega þegar ég monta mig ekki af því. Ég sofna með betri hjartslátt og safna karmaprikum sem síðar koma til mín sem gjafir.

Þarna úti, er fullt, fullt af fólki sem veit ekki hvort það fái íbúð af því það á hund eða kött.

Þarna úti er fullt, fullt af fólki sem getur ekki borgað leigu því leiguverðið er jafnhátt og launin þeirra.

Þarna úti er fullt, fullt af börnum sem flytja á milli hverfa af því leigusalar sjá betri hag í að leigja út íbúðir í Airbnb.

Sem betur fer eru þarna inn á milli góðhjartaðir gullmolar sem leigja út íbúðirnar sínar án þess að leggja meira en þarf á þær. Það er alltaf jafn fallegt að sjá þannig auglýsingar og sé ég að þeir fá alltaf frábæra leigjendur.

Við erum stórasta land í heimi og erum stöðugt að setja heimsmet. Þegar afreksfólkið okkar slær í gegn í hinum stóra heimi þá stöndum við öll saman eflum samkenndina. Finnst ykkur samkenndin ekki góð tilfinning? Hvað ef við reynum að slá annað met? Met í náungakærleik og verðum kærleiksríkasta land í heimi þar sem samkenndin og velferð allra er mælikvarðinn. Hversu frábær keppni yrði það? Ég myndi taka þátt.

Stundum elsku samlandar, er mesta frelsið að gefa af sér og leyfa heildinni að blómstra. Og það er jafnvel meira virði en 30.000 króna aukagróði inn á bankabók.

Hafið yndislegan dag og prófið að brosa framan í ókunnuga, það eflir samkenndina.

Ykkar Sigga

Höfundur er lífsleiknikennari, heilsuráðgjafi og sérlegur áhugamaður um mannlegt eðli. Pistillinn birtist fyrst á Facebook-síðu höfundar.




Skoðun

Skoðun

Börnin okkar

Halla Karen Kristjánsdóttir,Anna Sigríður Guðnadóttir,Valdimar Birgisson skrifar

Sjá meira


×