Fjórir sorphreinsimenn og þrír starfsmenn Darshan hótelsins í Indlandi eru látnir eftir að hafa andað að sér eitruðum gufum úr rotþró við þrif. BBC greinir frá.
Fólkið fannst látið í skólptanki á föstudag í þorpinu Fartikui. Talið er að í upphafi hafi einn sorphreinsimaður farið í rotþró sem átti að þrífa og þegar hann kom ekki út hafi hinir fylgt. Þegar allir fjórir höfðu farið inn og ekki snúið aftur fóru starfsmenn hótelsins á eftir þeim að leita.
Rúmlega þrjá tíma tók að ná líkum þeirra úr rotþrónni. Eigandi hótelsins hefur verið ákærður vegna dauðsfallanna og heita yfirvöld því að styðja fjárhagslega við fjölskyldur þeirra sem létust.
