Á föstudag ákvað stofnunin að það væri ekki ástæða til þess að lýsa yfir neyðarástandi þrátt fyrir að faraldurinn væri nú búinn að færast yfir til Úganda en þetta kemur fram á vef Reuters. Var slík yfirlýsing sögð valda of miklum skaða fyrir hagkerfi heimsins.
Þá voru nærliggjandi lönd hvött til þess að gera viðeigandi ráðstafanir til þess að bregðast við ebólusmitum líkt og Úganda hafði gert. Þá segja þau faraldurinn ekki vera vandamál á heimsvísu heldur einungis bundið við Austur-Kongó og nærliggjandi lönd.

Nokkur alþjóðleg læknasamtök hafa kallað eftir því að nefndin lýsi yfir neyðarástandi. Þau segja slíkt leiða til þess að viðeigandi ráðstafanir yrðu gerðar í heilbrigðismálum og fjármagn til málaflokksins yrði þannig tryggt.
Um það bil 1.400 manns hafa látið lífið í þeim faraldri sem nú geysar í Austur-Kongó og var fyrsta smitið greint í Úganda nú á dögunum. Um var að ræða fimm ára dreng sem lést af völdum veirunnar eftir að hafa ferðast til Austur-Kongó með fjölskyldu sinni.