Formleg móttökuathöfn fyrir nýjan Herjólf fer fram í Friðarhöfninni í Vestmannaeyjum í dag. Athöfnin hefst kl. 14.15 með ræðum samgönguráðherra, forstjóra Vegagerðarinnar, formanns bæjarráðs og fulltrúa Vestmannaeyjaferjunnar Herjólfs. Prestur Landakirkju mun blessa skipið og Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra formlega nefna það.
Skipið verður svo til sýnis milli kl. 14.30 og 16. Boðið verður upp á veitingar og skemmtiatriði. Skipið verður einnig til sýnis á morgun, sunnudag, frá kl. 16 til 18.
Skipið kom til hafnar í gær og lauk þar með langri bið. Upphaflega átti það að hefja siglingar 20. júní í fyrra. Það dróst til 30. mars á þessu ári vegna rafvæðingar skipsins. Skipið var tilbúið í Póllandi í mars en afhending frestaðist vegna samninga skipasmíðastöðvarinnar og Vegagerðarinnar. Skipið mun sigla á milli Vestmannaeyja og Landeyjahafnar.
