Innlent

Björn Bjarnason kallar eftir rökum frá Davíð

Þorbjörn Þórðarson skrifar
Björn segir að Morgunblaðið skuldi lesendum sínum skýringu á valdaframsalinu sem það telur felast í þriðja orkupakkanum og sé forsenda andstöðu blaðsins við hann.
Björn segir að Morgunblaðið skuldi lesendum sínum skýringu á valdaframsalinu sem það telur felast í þriðja orkupakkanum og sé forsenda andstöðu blaðsins við hann. Vísir/GVA
Björn Bjarnason fyrrverandi ráðherra segir í pistli á vefsíðu sinni að Morgunblaðið hafi hvergi rökstutt þá fullyrðingu í leiðara blaðsins í gær að með þriðja orkupakkanum sé verið að flytja aukin yfirráð yfir orkumálum Íslendinga til ESB.

Björn segir að hafi einhver yfirráð á þessu sviði verið flutt frá Íslandi til Evrópusambandsins hafi það verið gert með aðildinni að EES-samningnum árið 1994 eða breytingu á raforkulögunum 2003. Björn segir að ákvæði sem þá hafi verið leidd í lög séu útfærð nánar með innleiðingu þriðja orkupakkans þar sem mælt sé fyrir um aukið sjálfstæði Orkustofnunar til að tryggja að markaðssjónarmið ráði á íslenskum orkumarkaði.

Björn segir að Morgunblaðið skuldi lesendum sínum skýringu á valdaframsalinu sem það telur felast í þriðja orkupakkanum og sé forsenda andstöðu blaðsins við hann. Skrif Björns þykja athyglisverð fyrir þær sakir að hann og Davíð Oddsson ritstjóri blaðsins voru nánir bandamenn til áratuga á vettvangi stjórnmálanna og sátu saman í ríkisstjórn um árabil en þeir voru báðir kjörnir fyrst á Alþingi fyrir Sjálfstæðisflokkinn árið 1991.

Alþingi hefur ekki enn samþykkt þingsályktunartillögu um þriðja orkupakkann en síðari umræðu um tillöguna var frestað fram í ágúst eftir á annað hundruð klukkustunda málþóf þingmanna Miðflokksins. Bæði Liechtenstein og Noregur hafa aflétt stjórnskipulegum fyrirvara vegna þriðja orkupakkans. Beðið er eftir Íslandi svo gerðir pakkans öðlist gildi í EFTA/EES-ríkjunum þremur.


Tengdar fréttir

Gagnrýni Davíðs reynir á tilfinningar Sjálfstæðismanna

Þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins segir harða gagnrýni Davíðs Oddssonar á flokksforrystuna vera tilfinningalega erfiða fyrir marga flokksmenn. Þingmenn flokksins séu ósáttir við ritstjórnarskrif Davíðs þar sem magnaðar séu upp áhyggjur sem ekki skipta máli. Aðspurður um ákvörðun Bjarna Benediktssonar um að birta ekki afmælisgrein flokksins í Morgunblaðinu segir hann að pirringur geti virkað í báðar áttir.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×