Skoðun

Ein á ættarmóti

Steinunn Ólína skrifar
Nú er tími ættarmótanna og ég var nýlega á einu slíku, dálítið óvænt reyndar en ánægjulegt engu að síður.

Við tiltekt á heimili foreldra minna rakst ég á handtösku mömmu sem lést árið 1996. Í töskunni kenndi ýmissa grasa. Samankrumpuð Visa-nóta 876 krónur, lítill ferðaöskubakki úr silfri og í honum voru nokkrir vel uppreyktir Viceroy-stubbar. Ég tími ekki að tæma hann. Peningaveskið hennar var í töskunni líka og þar nafnskírteini og ökuskírteinið fína. Seint verður sagt um mömmu að hún hefði verið bílstjóri af Guðs náð en hún hafði allt „Í gildi“ fyrir misgáning og hefði því ef hún hefði kært sig um getað keyrt bæði vöru- og langferðabíl. Til blessunar fyrir samfélagið lét hún hvort tveggja ógert.

Í töskunni voru einnig ótal kveikjarar og pennar og nokkrir tossamiðar svo torráðnir að ég er engu nær um merkingu þeirra.

Við þetta töskugauf gaus upp gamalkunnug lykt, alls kyns minningar létu á sér kræla og allt í einu var mamma svo nálæg. Bara eins og ég hefði kallað hana fram með töskugramsi og hún risið upp úr töskunni eins og andinn úr lampa Aladdíns.

Í fórum foreldra minna leyndist líka kennslubók í Íslendingasögunum, á saurblaðinu skrifað með barnslegri rithönd Héðinn Valdimarsson og forláta silfurskept trésvipa með fangamarki Bríetar Bjarnhéðinsdóttur. Gaman að handfjatla þessa gripi og finna af þeim lyktina. Hugsa um fólkið sitt.

Þessi samfundur með þremur ættliðum öllum gengnum var einstaklega notalegur og þessi eftirmiðdagur hið skemmtilegasta ættarmót. Enginn fullur frændi sem eyðilagði stemninguna, ekkert kæfusoðið lambakjöt, enginn gítar og engar útblásnar ræður.




Skoðun

Skoðun

21 blár

Jón Pétur Zimsen skrifar

Sjá meira


×