Breiðablik vann öruggan 5-0 sigur á Fylki er liðin mættust á Kópavogsvelli í níundu umferð Pepsi Max-deildar kvenna í kvöld.
Þessi sömu lið mættust í 16-liða úrslitum Mjólkurbikarsins og þá gerðu Árbæingar sér lítið fyrir og unnu óvæntan 1-0 sigur á tvöföldu meisturunum.
Blikarnir voru staðráðnir í að bæta fyrir það í kvöld og eftir einungis fjórar mínútur var staðan orðinn 1-0 er landsliðsframherjinn Berglind Björg Þorvaldsdóttir skoraði.
Agla María Albertsdóttir bætti við marki á markamínútunni, þeirri 44., og á sjöundu mínútu síðari hálfleiks var það miðjumaðurinn ungi Alexandra Jóhannsdóttir sem skoraði það þriðja.
Berglind Björg skoraði annað mark sitt og fjórða mark Blika á 53. mínútu og Alexandra rak síðasta naglann í kistu Fylkis á 68. mínútu. Lokatölur 5-0.
Eftir sigurinn er Breiðablik í öðru sætinu, með jafn mörg stig og Valur sem er á toppnum, en með fimm mörkum verri markatölu.
Fylkir er í sjöunda sætinu með sjö stig.
