Knattspyrnusamband Íslands hefur tekið saman opinberar tölur yfir aðsókn að leikjum í Pepsi Max deild karla til þessa í sumar.
Aðsókn að leikjum Pepsi Max deildar karla hefur verið með miklum ágætum í sumar. Alls hafa verið leiknir 68 leikir og er heildarfjöldi áhorfenda 76.646, sem er meðalfjöldi 1.127 á leik. KSÍ er með frétt um mætinguna á heimasíðu sinni en félögin sjá sjálf um að taka saman og skila aðsóknartölum til sambandsins.
Ellefu heilar umferðir hafa verið leiknar og tveimur leikjum betur (68 leikir), þannig að segja má að mótið sé hálfnað. Tveir leikir úr 8. umferð fóru fram um miðjan júní og hinir fjórir leikirnir í þeirri umferð fara fram dagana 13. til 15. júlí.
Best sótta umferðin hingað til er 11. umferðin, en þá var heildarfjöldi áhorfenda 8.207.
Best sótti leikurinn hingað til var einmitt viðureign KR og Breiðabliks á Meistaravöllum í 11. umferð, en á þeim leik var áhorfendafjöldinn 3.012.
KR hefur náð sjö stiga forskoti með því að ná í sex fleiri stig en Blikar í tveimur síðustu umferðum.
KR-ingar líka búnir að ná toppsætinu yfir bestu aðsóknina í Pepsi Max deildinni en meðalaðsóknin er að heimaleikjum KR, 1.658 manns. Blikar voru þar á toppnum en eru nú í öðru sæti með meðalaðsókn upp á 1.593 manns.
Meðalaðsókn á heimaleiki liða í Pepsi Max deild karla 2019:
1. KR 1.658
2. Breiðablik 1.593
3. FH 1.500
4. ÍA 1.424
5. Fylkir 1.386
6. Valur 1.087
7. Víkingur 1.068
8. Stjarnan 1.023
9. KA 895
10. HK 850
11. Grindavík 657
12. ÍBV 427

