Erlent

Stærsti jarð­skjálfti sem skekið hefur Kalí­forníu í tvo ára­tugi

Andri Eysteinsson skrifar
Borg englanna fann vel fyrir skjálftanum í nótt.
Borg englanna fann vel fyrir skjálftanum í nótt. Getty/David McNew
Jarðskjálfti sem mældist að stærðinni 7,1 skók suðurhluta Kaliforníu á vesturströnd Bandaríkjanna í nótt. Um er að ræða stærsta skjálfta sem mælst hefur á svæðinu í tvo áratugi.

Skjálftamiðjan var á 900 metra dýpi í borginni Ridgecrest um 240km norðaustur af Los Angeles, stærstu borgar Kalíforníu.

Áhrifa jarðskjálftans gætti víðar en í suðurhluta Kalíforníu en skjálftinn fannst til að mynda einnig í Las Vegas í Nevada og á landamærum Bandaríkjanna við Mexíkó.





Jarðskjálftafræðingurinn Dr. Lucy Jones, ráðgjafi borgarstjóra Los Angeles, sagði á blaðamannafundi að um væri að ræða skjálftahrinu en síðasta fimmtudag skók skjálfti sem mældist 6,4 svæðið. Þá hafa eftirskjálftar verið fjölmargir en sá stærsti í nótt mældist 5,5.

Samkvæmt BBC hafa engar fregnir borist af dauðsföllum af völdum skjálftans en í Ridgecrest glíma íbúar við eldsvoða, gasleka og rafmagnsleysi.

Skjálftinn hafði einhver áhrif á íþróttir í suðvesturhluta Bandaríkjanna en hætta þurfti leik New Orleans Pelicans og New York Knicks í sumardeild NBA-deildarinnar í körfubolta þegar fjórði leikhluti var nýhafinn.

Þá sést skjálftinn vel á myndbandi sem hafnaboltaliðið Los Angeles Dodgers deildi á Twitter síðu sinni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×