Hún segir andann á Prikinu stundum minna á Staupastein, þar sem allir þekktu einmitt alla.
„Núna er ég farin að upplifa þetta sjálf eftir að ég byrjaði að gera myndina. Nú veit starfsfólkið hvernig ég panta kaffið mitt og þjónustan þarna er svo persónuleg.“
Magnea hefur áður unnið heimildarmyndir um staði í miðbænum og skemmtilegt fólk sem þar býr.
Leikur að andstæðum
„Mér finnst þetta skemmtilegar andstæður að vinna með, Helgi er af eldri kynslóðinni en blandast svona vel við unga fólkið þó hann sé nú ekki beint á djamminu þarna á föstudags- og laugardagskvöldum. Prikið er heimili hipphopp-menningarinnar í Reykjavík og það er gaman hvernig þetta blandast allt saman, gamli og nýi tíminn.“

„Við förum líka í göngutúr um bæinn og kíkjum meðal annars á Pönksafnið í Bankastrætinu. Svo kynnir hann okkur sögu Reykjavíkur og Priksins, sem hann er einstaklega fróður um.“
Magnea fékk styrk frá Reykjavíkurborg til að tvinna gamlar myndir úr borginni inn í myndina og lætur þannig gamla og nýja tíma tala saman. „Það er gaman að gera heimildarmynd um manneskju sem lítur á miðbæinn sem vinalegt þorp. Heilsar upp á alla með handabandi og gefur sér tíma til að horfa í augun á fólki. Einhvern sem myndar svona falleg tengsl við aðra. Hann spyr alltaf um heilsu og líðan fólks, spjallar um daginn og veginn. Þetta er svo dýrmætt á þessum tímum snjallsímanna þegar flest samskipti virðast vera á samskiptamiðlum.“
Kærleiksboðberinn
Magnea segir Helga standa fyrir þessi góðu mannlegu tengsl sem við virðumst vera að tapa með tæknivæðingunni.
„Þess vegna er gaman að bera saman fortíðina og nútíðina á þennan máta. Samskiptin, Reykjavík, fortíðin og framtíðin. Helgi er einhvern veginn á öðru plani, hann er svo mikill snillingur. Ég myndi segja að hann væri kærleiksboðberi og það hefur verið magnað að kynnast honum betur við gerð myndarinnar,“ segir Magnea .
Magnea stendur fyrir söfnun til að klára gerð myndarinnar. Hægt er að leggja henni lið á heimasíðunni karolinafund.com.