Enski boltinn

United-menn sleppa ekki við Liverpool stríðnina í Ástralíu

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Liverpool-maðurinn Virgil van Dijk með Meistaradeildarbikarinn í vor.
Liverpool-maðurinn Virgil van Dijk með Meistaradeildarbikarinn í vor. Getty/VI Images
Manchester United liðið er nú statt hinum megin á hnettinum í æfingaferð í Asíu og menn héldu kannski að þeir væru lausir við Liverpool kyndingarnar. Svo er þó ekki.

United liðið byrjaði á því að fara til Ástralíu en svo taka við leikir í Singapúr og Kína. Fyrsti æfingarleikurinn er á móti Perth Glory í Perth á Vesturströnd Ástralíu.

Síðasta tímabil Manchester United var stuðningsmönnum þess mjög erfitt. Liðið vann engan titil og endaði í sjötta sæti deildarinnar. Það verður því engin Meistaradeild á Old Trafford á næstu leiktíð.

Það sem er verra að erkifjendurnir úr Bítlaborginni fóru alla leið í Meistaradeildinni og nágrannarnir í Manchester borg unnu heima-þrennuna svokölluðu fyrstir enskra félaga. Fjórir titlar síðasta tímabils enduðu því hjá þessum tveimur höfuðandstæðingum Manchester United.

Það hefur líka verið smá rembingur í stuðningsmönnum Liverpool eftir síðasta tímabil þar sem Liverpool vann Meistaradeildina og endaði 31 stigum á undan Manchester United í ensku deildinni.

Það er líka alltaf von á stuðningsmanni Liverpool eins og United fékk að upplifa í Perth. ESPN segir frá einum Liverpool manni sem var alveg til í að eyða dágóðum pening í smá stríðni.  





Eins og sést hér fyrir ofan þá leigði umræddur stuðningsmaður flugvél til að fljúga yfir æfingasvæði Manchester United með borða þar sem stóð að Liverpool væri sexfaldur Evrópumeistari meistaraliða.

Liverpool varð einnig Evrópumeistari 1977, 1978, 1981, 1984 og 2005. Manchester United hefur unnið Evrópukeppni meistaraliða þrisvar sinnum eða 1968, 1999 og 2008.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×