Enski boltinn

Dýrasti leikmaður Newcastle fiskaði og fékk á sig víti í fyrsta leiknum fyrir félagið

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Joelinton var nýkominn inn á þegar hann fiskaði vítaspyrnu.
Joelinton var nýkominn inn á þegar hann fiskaði vítaspyrnu. vísir/getty
Joelinton, dýrasti leikmaður í sögu Newcastle United, lék sinn fyrsta leik fyrir félagið í dag og kom mikið við sögu þegar Newcastle tapaði fyrir B-deildarliði Preston, 2-1, í æfingaleik á Deepdale.

Brassinn, sem Newcastle keypti frá Hoffenheim fyrir 40 milljónir punda, kom inn á í hálfleik. Newcastle var þá 0-1 yfir þökk sé marki Jonjos Shelvey á 39. mínútu.

Aðeins 36 sekúndum eftir að Joelinton kom inn á fiskaði hann vítaspyrnu. Miguel Almirón fór á punktinn en Declan Rudd, markvörður Preston, varði spyrnu hans.

Paul Gallagher jafnaði fyrir Preston á 61. mínútu. Ellefu mínútum síðar fengu heimamenn víti eftir að Joelinton braut á Patrick Bauer innan vítateigs. Gallagher tók spyrnuna, skoraði sitt annað mark og tryggði Preston sigurinn.

Þetta var fyrsti leikur Newcastle með nýja knattspyrnustjórann, Steve Bruce, á hliðarlínunni. Hann þurfti að fylgjast með úr stúkunni vegna vandamáls með vegabréfsáritun þegar Newcastle vann West Ham United, 1-0, í Asíubikarnum í síðustu viku.

Newcastle á eftir að leika tvo leiki áður en keppni í ensku úrvalsdeildinni hefst. Á þriðjudaginn mætir Newcastle skoska liðinu Hibernian og á laugardaginn eftir viku mætir liðið St. Étienne frá Frakklandi.

Fyrsti leikur Newcastle í ensku úrvalsdeildinni er gegn Arsenal á heimavelli 11. ágúst.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×