Á meðal þeirra sem hafa gagnrýnt þessa ráðningu er Björn Leví Gunnarsson, þingmaður Pírata. Hann segir augljóst, sama hversu ósanngjarnt það getur talist, að Ásgeir sé með óuppgerða fortíð varðandi traust og trúverðugleika en Björn segir markmið stjórnvalda einmitt að auka traust og trúverðugleika.
Ásgeir var á árunum fyrir hrun forstöðumaður greiningardeildar og aðalhagfræðingur Kaupþings. Eftir að tilkynnt var um ráðningu hans í stól Seðlabankastjóra hafa ummæli hans í Íslandi í dag frá því í maí árið 2008, nokkrum mánuðum fyrir bankahrunið, verið rifjuð upp.
Þar var Ásgeir Jónsson mættur ásamt Ingólfi Bender til að ræða hagnað bankanna á fyrsta ársfjórðungi 2008. Sölvi Tryggvason var spyrill en hann sagði orðið á götunni hafa verið að bankarnir væru nánast gjaldþrota en síðan hafi þeir skilað blússandi hagnaði fyrstu þrjá mánuði ársins.
Ásgeir sagði að það væri „hystería í gangi“ þegar hann kom inn á umræðu þess efnis að bjarga þyrfti bönkunum þremur. Ásgeir tók fram að niðursveiflan á Íslandi væri ekki komin fram á þessum tímapunkti en eftir sem áður gengi bönkunum alveg þokkalega.
„Hann sparaði ekki stóru orðin á óheppilegum tíma rétt fyrir hrun. Þetta var mjög röng spá þegar þau orð eru skoðuð í baksýnisspeglinum. Fyrir mér var það persónulega frekar einkennandi fyrir hrunið, þeir sem viðhéldu tálsýninni um það hvert hagkerfið væri að fara. Ásgeir var mikill talsmaður þess og einn af þeim sem viðhélt þeirri tálsýn. Þetta er ábyrgð sem ekki hefur verið staðið undir eins og ég horfi á það,“ segir Björn.
Þess vegna segist Björn klóra sér í höfðinu vegna þessarar ákvörðunar ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur sem hafi það að markmiði að efla traust og trúverðugleika.

Björn Leví segist spyrja sig hvort að fortíð Ásgeirs hefði átt að vera hluti af hæfniskröfunum ef að markmiðið er að auka traust og trúverðugleika.
Á það hefur verið bent á samfélagsmiðlum að þeir sem helst fagna ráðningu Ásgeirs séu þeir sem aðhyllist frjálshyggju en almannatengillinn Andrés Jónsson vill meina að Ásgeir sé blautur draumur frjálshyggjumanna.
Hann er blautur draumur frjálshyggjugaursins í þessum stól.
— Andres Jonsson (@andresjons) July 24, 2019
Nú hlýtur að styttast í að Jónas Fr. Jónsson taki aftur við fjármálaeftirliti á Íslandi.
Ásgeir er vel að þessu kominn. Hvað ætli sé langt í að þessi skipan verði kölluð stríðsyfirlýsing?https://t.co/WzLVnXDNMZ
— Konráð S. Guðjónsson (@konradgudjons) July 24, 2019
Tónlistarmaðurinn Bubbi Morthens segir ummæli Ásgeirs um ástand mála árið 2008 allt annað en traustvekjandi.