Viðskipti innlent

Gera hlé á veitingu verð­tryggðra íbúðalána

Eiður Þór Árnason skrifar
Arion banki bíður nú niðurstöðu Hæstaréttar.
Arion banki bíður nú niðurstöðu Hæstaréttar. Vísir/vilhelm

Arion banki hefur gert hlé á veitingu verðtryggðra íbúðalána í kjölfar dóms Hæstaréttar í máli gegn Íslandsbanka þar sem skilmálar óverðtryggðs láns voru að hluta dæmdir ólögmætir.

Að sögn Arion banka eru skilmálar íbúðalána bankans með breytilega vexti ólíkir þeim sem voru til umfjöllunar í dómi Hæstaréttar. Óháð því muni dómstólinn síðar taka fyrir mál sem snýr að láni Arion banka með breytilegum verðtryggðum vöxtum. Landsréttur hafi dæmt bankanum í vil í febrúar en óvissa ríki nú um lögmæti vaxtabreytingarskilmála verðtryggðra lána.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Arion banka en í ljósi aðstæðna hafa stjórnendur hans ákveðið að gera hlé á veitingu verðtryggðra lána, bæði með föstum og breytilegum vöxtum. Þá verði metið hvort hægt sé að bjóða upp á bráðabirgðalausn þar til óvissu um lögmæti skilmálanna hafi verið eytt. Arion banki bendir á að óverðtryggð lán verði áfram í boði.

Ekki fyrsti bankinn sem gerir hlé á lánveitingum eftir dóminn

Landsbankinn tilkynnti í síðustu viku að hlé yrði gert á vinnslu lánsumsókna fram yfir helgi á meðan bankinn greindi áhrif áðurnefnds dóms Hæstaréttar. Móttaka nýrra umsókna um íbúðalán yrði sett á bið en unnið með viðskiptavinum að afgreiðslu þeirra lánsumsókna sem þegar eru í vinnslu hjá bankanum.

Þá hefur Lífeyrissjóður starfsmanna ríkisins (LSR) gert hlé á úrvinnslu íbúðalána með breytilegum vöxtum og afgreiðir nú eingöngu umsóknir um lán með föstum vöxtum út lánstímann. LSR hyggst afgreiða allar lánsumsóknir sem voru þegar í vinnslu hjá sjóðnum á föstudag. 

Fréttin er í vinnslu.


Tengdar fréttir

Skilmálar Arion frábrugðnir en áhrifin væru óveruleg

Arion banki bendir á að skilmálar íbúðalána bankans með ákvæðum um breytilega vexti séu frábrugðnir þeim sem fjallað er um í dómi Hæstaréttar í málinu gegn Íslandsbanka og því sé erfitt að meta nákvæm áhrif af dómnum á lán Arion banka með óverðtryggðum vöxtum. Að því gefnu að sambærileg niðurstaða fengist í ágreiningsmáli um lán Arion banka með óverðtryggðum vöxtum sé það bráðabirgðamat bankans að fjárhagsleg áhrif slíkrar niðurstöðu yrðu óveruleg.

Vill laga „hring­ekju verð­tryggingar og hárra vaxta“

Bankastjóri Arion banka segir verðtryggingu hafa mikil áhrif á vaxtastigið hér á landi. Tímabært sé að ræða með opnum hug hvort rétt sé að draga úr vægi verðtryggingar í íslensku hagkerfi og laga „hringekju verðtryggingar og hárra vaxta“ sem farið hafi af stað árið 1979. Það myndi kalla á breytingar á uppbyggingu réttindakerfis lífeyrissjóðanna.

Skilmálarnir umdeildu ógiltir

Hæstiréttur hefur fallist á kröfur neytenda að hluta í Vaxtamálinu svokallaða. Málið varðaði tugmilljarða hagsmuni neytenda annars vegar og stóru viðskiptabankanna þriggja hins vegar.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×