Arnar Davíð Jónsson keilari úr KFR sigraði í dag á Track Open sem fram fór í München í Þýskalandi.
Mótið er hluti af Evróputúrnum og er þetta í annað sinn sem Arnar sigrar á móti á túrnum en hann vann mót í Óðinsvé í september á síðasta ári.
Arnar sem býr í Svíþjóð og spilar með Höganas BC spilaði mjög vel í dag og náði forystunni í mótinu þegar tveir leikir voru eftir.
Hann leit aldrei til baka eftir það og kláraði mótið með stæl.
Með sigrinum fór Arnar aftur á toppinn á stigalista Evróputúrsins en hann hafði fallið niður í annað sætið eftir að hafa verið efstur í nokkrar vikur.
