Lögregla á grísku eyjunni Íkaríu fann í dag lík Natalie Christopher, bresks stjarneðlisfræðings. Ekkert hafði spurst til Christopher síðan hún fór út að skokka á mánudagsmorgun.
Í frétt AP-fréttaveitunnar segir að líkið hafi fundist í 20 metra djúpu gili í grennd við dvalarstað Christopher og kærasta hennar á eyjunni. Það var kærastinn sem tilkynnti um hvarf Christopher eftir að hún skilaði sér ekki heim úr hlaupinu.
Parið er búsett á Kýpur en var á ferðalagi á Íkaríu, um 210 kílómetrum sunnan af Aþenu. Lögregluyfirvöld blésu strax til umfangsmikillar leitar. Ekkert hefur verið gefið út um banamein Christopher að svo stöddu.
