Enski boltinn

United lauk undirbúningstímabilinu með því að vinna Milan í vítaspyrnukeppni

Ingvi Þór Sæmundsson skrifar
Lingard skoraði jöfnunarmark United gegn Milan.
Lingard skoraði jöfnunarmark United gegn Milan. vísir/getty
Manchester United vann AC Milan í vítaspyrnukeppni í síðasta leik sínum á undirbúningstímabilinu í dag. Leikurinn var liður í International Champions Cup og fór fram í Cardiff. Staðan eftir venjulegan leiktíma var jöfn, 2-2, en United vann vítakeppnina, 4-5.

Leikmenn United skoruðu úr öllum sínum spyrnum í vítakeppninni en David de Gea varði frá Daniel Maldini, syni Paolos Maldini. Velski kantmaðurinn Daniel James skoraði úr síðustu spyrnu United.



Marcus Rashford kom United yfir á 14. mínútu. Hann fékk boltann á vinstri kantinum frá Nemanja Matic, lék á tvo varnarmenn Milan og skoraði með skoti í fjærhornið.

Suso jafnaði með skot fyrir utan vítateig á 26. mínútu og staðan var jöfn í hálfleik, 1-1.

Milan komst yfir eftir klukkutíma leik þegar Victor Vindelöf skoraði sjálfsmark. Á 72. mínútu jafnaði varamaðurinn Jesse Lingard í 2-2. Fleiri urðu mörkin og því réðust úrslitin í vítakeppni.

United tapaði ekki leik á undirbúningstímabilinu, skoraði tólf mörk og fékk aðeins á sig þrjú.

Fyrsti leikur liðsins í ensku úrvalsdeildinni er gegn Chelsea á Old Trafford á sunnudaginn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×