Kolbeinn Finnsson er á leið til Borussia Dortmund. Frá þessu er greint á 433.is.
Þar segir að Dortmund kaupi Kolbein frá enska B-deildarfélaginu Brentford og hann skrifi undir þriggja ára samning við þýska félagið.
Kolbeinn var lánaður til Fylkis í sumar. Hann lék 13 leiki með Árbæingum í Pepsi Max-deildinni og skoraði tvö mörk.
Kolbeinn, sem verður tvítugur síðar í þessum mánuði, gekk í raðir Groningen 2016. Hann lék með unglinga- og varaliðum félagsins.
Hann fór til Brentford sumarið 2018. Á síðasta tímabili lék hann yfir 40 leiki með varaliði félagsins.
Kolbeinn hefur leikið tvo A-landsleiki auk fjölda leikja fyrir yngri landsliðin.

