Ostabúðinni á Skólavörðustíg hefur verið lokað fyrir fullt og allt.
Þetta kemur fram á vefsíðunni Veitingageiranum. Þar er haft eftir Jóhanni Jónssyni, matreiðslumeistara og eiganda búðarinnar, að nóg hafi verið að gera, en samt hefði þurft að fylla í fleiri sæti.
Rekstrarkostnaður staðarins hafi einfaldlega verið orðinn of mikill og forsendur fyrir lágu vöruverði því brostnar. Þeim 15 sem störfuðu hjá Ostabúðinni var tilkynnt um lokunina á fundi nú í morgun.
Staðurinn hóf rekstur árið 2000 og var þekktur fyrir einstaklega breitt úrval osta og annars varnings, auk þess sem staðurinn bauð upp á hádegismat. Á vormánuðum 2015 opnaði Jóhann veitingastað við hlið Ostabúðarinnar. Sá tók um 50 manns í sæti og bauð upp á kvöldmat.
Nú hefur öllum rekstri staðarins verið hætt.
