Tekjur Símans á öðrum ársfjórðungi 2019 lækkuðu um 0,5% samanborið við sama tímabil í fyrra og rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) jókst um 9,1%. Hagnaður félagsins lækkaði úr 853 í 798 milljónir króna milli ára. Þetta er meðal helstu niðurstaða úr nýjasta árshlutareikningi Símans en tilkynning þess efnis barst kauphöllinni frá félaginu fyrr í dag.
Tekjur á öðrum ársfjórðungi félagsins árið 2019 námu 7.115 milljónum króna samanborið við 7.153 milljónir króna á sama tímabili 2018 og lækkuðu því eins og fyrr segir um 0,5% milli tímabila.
Rekstrarhagnaður fyrir afskriftir og fjármagnsliði (EBITDA) nam 2.602 milljónum króna á öðrum ársfjórðungi 2019 samanborið við 2.386 milljónir króna á sama tímabili 2018 og hækkar því um 216 milljónir króna eða 9,1% frá sama tímabili í fyrra. EBITDA hlutfallið er 36,6% fyrir annan ársfjórðung 2019 en var 33,4% á sama tímabili 2018. Að teknu tilliti til breytinga vegna IFRS 16 reikningsskilastaðalsins þá nam EBITDA á öðrum ársfjórðungi í fyrra 2.581 milljónum króna og EBITDA hlutfall var 36,1%.
Hagnaður á ársfjórðungnum nam 798 milljónum króna samanborið við 853 milljónir króna á sama tímabili í fyrra. Var eiginfjárhlutfall Símans hf. 56,3% í lok ársfjórðungsins 2019 og eigið fé 36,3 milljarðar króna.
Þess má geta að samanburðarfjárhæðir á öðrum ársfjórðungi 2018 hafa verið uppfærðar í samræmi við breytta meðhöndlun á sýningarrétti sjónvarpsefnis.
„Við erum sátt við uppgjörið og þann stöðuga og fyrirsjáanlega rekstur sem þar gefur að líta. EBITDA eykst miðað við sama fjórðung í fyrra auk þess sem myndarleg aukning er í EBITDA frá fyrsta fjórðungi þessa árs, en sá fjórðungur var undir væntingum af ýmsum sökum. Launahækkanir kjarasamninganna komu til framkvæmda við upphaf annars ársfjórðungs og því er mikilvægt að launakostnaður samstæðunnar er lægri á þessum fjórðungi í ár en á sama tímabili í fyrra. Áframhaldandi aðgerðir til að draga úr kostnaði, eins og þær sem var ráðist í við upphaf þessa árs, eru lykilþáttur í að ná fram slíkum sparnaði,“ er haft eftir Orra Haukssyni, forstjóra Símans í tilkynningu til kauphallarinnar.
