Alþýðusamband Íslands lýsir furðu sinni á fréttaflutningi undanfarinna daga og viðhorfum ýmissa stjórnmálamanna vegna þátttöku Katrínar Jakobsdóttur forsætisráðherra á þingi Norræna verkalýðssambandsins (NFS) á sama tíma og varaforseti Bandaríkjanna sæki landið heim. Þetta kemur fram í tilkynningu.
Fjarvera Katrínar hefur vakið athygli fjölmiðla víða um heim. Hún segist hins vegar hafa fyrir löngu hafa staðfest þátttöku á þinginu og aðrir ráðherrar muni taka á móti Mike Pence, varaforseta Bandaríkjanna.
Formaður NFS er Sonja Ýr Þorbergsdóttir, formaður BSRB. Í tilkynningu ASÍ segir að sú venja hafi skapast að forsætisráðherra þess lands sem fer með formennsku hverju sinni flytji aðalræðuna á þinginu. Það komi því í hlut Katrínar og ríki mikil eftirvænting meðal væntanlegra þingfulltrúa að heyra það sem hún hafi til málanna að leggja.
Katrín flytur erindi sitt í Malmö þann 3. september. Mike Pence er væntanlegur til landsins 4. september og heldur í framhaldinu til Bretlandseyja þar sem hann ver 5. september fyrir tveggja daga heimsókn til Írlands dagana á eftir.
Fréttablaðið fullyrðir að Mike Pence muni funda með Katrínu eftir allt saman eftir að Katrín snýr til Íslands frá Malmö þann 4. september. Samkvæmt heimildum Vísis er von á tilkynningu vegna málsins í dag en fréttastofa hefur ekki fengið fund þeirra Pence og Katrínar staðfestan.
