„Í gær voru fyrstu tvö kerin í kerskála þrjú ræst, aðeins á undan áætlun og það er bara mjög ánægjulegt að ná því,“ segir Bjarni Már Gylfason upplýsingafulltrúi Rio Tinto á Íslandi í samtali við fréttastofu. Slökkt var á umræddum kerskála þann 21. júlí af öryggisástæðum vegna ljósboga sem myndaðist inni í einu kerinu en upphaflega stóð til að endurræsa skálann í byrjun september.
Rannveig Rist, forstjóri álversins í Straumsvík, sagði ákvörðunina um að slökkva á kerinu hafa átt sér langan aðdraganda vegna erfiðleika í áliðnaðinum þar sem erfitt hefði verið að fá súrál. Því neyddist álverið til þess að reiða sig á súrál frá „óvenjulegum löndum“ sem varð til þess að kerin hafi orðið veik. Lokaákvörðun var svo tekin eftir að ljósboginn myndaðist.
Sjá einnig: Ekki séð ljósboga af þessu tagi nokkurn tímann áður
Bjarni Már segir að það gangi vel að endurræsa kerin og það sé ánægjulegt að ferlið sé hafið. Hann á þó ekki von á því að það verði kveikt á nýjum kerjum í dag vegna fjölskylduhátíðar í Straumsvík í dag þar sem haldið er upp á fimmtíu ára afmæli álframleiðslu á Íslandi. Fjölskylduhátíðin er opin öllum.
Hann gerir ráð fyrir því að tvö ker verði ræst á dag og það geti tekið nokkra mánuði að ná öllum skálanum aftur í gang. Það sé hins vegar of snemmt að greina frá því hversu mikið fjárhagstjón fylgdi lokun skálans en reksturinn sé í góðu jafnvægi sem stendur. Síðast var kerskála lokað í tíu vikur árið 2006 en þá nam tjónið um fjórum milljörðum króna.
„Það verður gert upp síðar en það er auðvitað mikilvægast að koma framleiðslunni aftur í fullan gang,“ segir Bjarni Már.
