Fabio Capello, fyrrverandi knattspyrnustjóri AC Milan, Juventus og fleiri liða, segir að Romelu Lukaku sé ekki í heimsklassa.
Inter keypti Lukaku frá Manchester United fyrir 73 milljónir punda í sumar. Belginn hefur farið vel af stað með Inter og skorað í fyrstu tveimur leikjum liðsins í ítölsku úrvalsdeildinni á tímabilinu.
Þrátt fyrir það er Capello ekki sannfærður um ágæti Lukakus.
„Hann er góður leikmaður með góðar hreyfingar. Hann er búinn að skora tvö mörk, annað úr vítaspyrnu og hitt eftir mistök markvarðar. Hann er brúkhæfur en ekki í heimsklassa,“ sagði Capello.
Undanfarin tvö tímabil hefur Inter endað í 4. sæti ítölsku úrvalsdeildarinnar. Liðið ætlar sér stærri hluti í vetur með Antonio Conte við stjórnvölinn.
