Alexis Sanchez átti sviðsljósið í leik Inter Milan og Sampdoria í ítölsku Seria A deildinni í dag.
Sanchez skoraði annað mark Inter á 22. mínútu, aðeins tveimur mínútum eftir að Stefano Sensi hafði komið Inter yfir.
Undir lok fyrri hálfleiks fékk hann gult spjald og á fyrstu mínútu seinni hálfleiks fékk hann annað gult spjald, það seinna fyrir leikaraskap. Það þýddi að hann þurfti að fara í sturtu og Inter manni færri allan seinni hálfleikinn.
Heimamenn í Sampdoria nýttu sér það og skoruðu mark á 55. mínútu. Roberto Gagliardini náði hins vegar að skora þriðja mark Inter á 61. mínútu.
Gestirnir héldu út og fóru með 3-1 sigur. Inter fór þar með á topp deildarinnar þar sem liðið situr með fullt hús eftir sex umferðir, tveimur stigum meira en Juventus.
