„Ég þekki ekki dæmi um að ráðamenn hér á landi hafi haft afskipti af dómurum,“ segir Ragnar Aðalsteinsson, lögmaður Guðjóns Skarphéðinssonar.
Ummæli hans fyrir helgi í viðtali við Sigmar Guðmundsson í Morgunútvarpinu á Rás 2 vöktu talsverða athygli. Þar sagði Ragnar að ríkisvaldið væri að setja pressu á dómara í tengslum við uppgjör Guðmundar- og Geirfinnsmála.
Sagði Ragnar að hann vonaðist til að hann þyrfti ekki að hafa áhyggjur af því hver hefði hringt í dómarann kvöldið áður en dómur væri kveðinn upp.
Í samtali við Fréttablaðið segist Ragnar ekki þekkja nein dæmi um afskipti ráðamanna af dómurum. „En þegar það er ágreiningur um hvort dómarar hafi verið skipaðir með faglegum hætti af stjórnmálamönnum þá skapast vafi sem er hættulegur fyrir trúverðugleika dómstólanna,“ segir Ragnar.
Ingibjörg Þorsteinsdóttir, formaður Dómarafélags Íslands, vildi ekki tjá sig um ummæli Ragnars. Sagði hún að félagið gæti ekki verið að bregðast við einstökum ummælum lögfræðinga þó að þau væru stuðandi.
