„Við erum líka dýr og lútum náttúrunni, þó svo við teljum okkur trú um eitthvað annað í huganum,“ segir Eiríkur.
Hann segir gigtina mikilvæga í gömlum heimildum og alþýðlegum veðurspám því gigtveikt fólk hafi farið að kvarta áður en slæm veður skullu á. Slitgigt hafi verið mjög algeng á þeim öldum sem Íslendingar hafi stritað dægrin löng.
„Í bók Jónasar frá Hrafnagili, Íslenskir þjóðhættir, stendur að ískrað hafi í gigt gamla fólksins á undan vondum veðrum.“

„Þarna voru 20 manns á öllum aldri og ég fann að þessi hópur fær ekki mikinn skilning í þjóðfélaginu,“ segir Eiríkur.
Hafa þessi tengsl helst verið sett í samhengi við breytingu á loftþrýstingi. „Ég hef rætt við veðurfræðinga sem hafa litla trú á þessu og sögðu að ef loftþrýstingur gæti haft svo mikil áhrif á gigtarsjúklinga ættu þeir að vera sárþjáðir við að keyra yfir Hellisheiðina,“ segir Eiríkur.

Arnór Víkingsson, gigtarlæknir á Landspítalanum, segir að þær rannsóknir sem gerðar hafa verið, til dæmis í Hollandi, séu ófullnægjandi og sýni misvísandi niðurstöður. Ábyggilegt sé hins vegar að veðurbreytingar hafi áhrif á ákveðinn hluta gigtarsjúklinga.
„Það er erfitt að negla niður lífeðlisfræðilegar skýringar á þessu og þetta er mjög einstaklingsbundið,“ segir Arnór. „Ég tel að veðrabreytingin sjálf skipti mestu og hún kemur gjarnan samfara loftþrýstingsbreytingu.“ Nefnir hann einnig hitastigið og þess vegna velji margir sjúklingar að fara í heit eða köld böð, og hafa gert árþúsundum saman. Einnig gæti rakamettun lofts skipt máli.
Um fimmtungur þjóðarinnar þjáist af gigt af einhverri tegund en Arnór segir að þeir sem eru með útbreidda og verkjamikla gigt séu næmari fyrir veðurbreytingum. 60 til 80 prósent af til dæmis slit- og vefjagigtar sjúklingum séu næm.