Innlent

Grunsamlegar mannaferðir á höfuðborgarsvæðinu

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Eitt atvikið átti sér eðlilegar skýringar.
Eitt atvikið átti sér eðlilegar skýringar. Vísir/vilhelm
Lögreglu á höfuðborgarsvæðinu var í þrígang tilkynnt um grunsamlegar mannaferðir í gærkvöldi- og í nótt. Fyrsta atvikið var tilkynnt á níunda tímanum í Hlíðunum en reyndist þó eiga sér eðlilegar skýringar, að því er segir í dagbók lögreglu.

Klukkan 23:16 var aftur tilkynnt um grunsamlegan mann í Kópavogi. Lögregla fór á staðinn og ræddi við viðkomandi en ekki reyndist þörf á frekari afskiptum.

Seint á öðrum tímanum í nótt var svo tilkynnt um einstakling sem fór inn í garða í Fossvogi með vasaljós. Lögregla leitaði einstaklingsins en fann hann ekki.

Klukkan 21 var ökumaður stöðvaður á 116 kílómetra hraða á Kringlumýrarbraut, þar sem hámarkshraði er 80 kílómetrar á klukkustund. Eyðublað vegna umferðarlagabrota var fyllt út á staðnum og ökumaður hélt för sinni áfram.

Á níunda tímanum var svo tilkynnt um einstaklinga í átökum í Breiðholti. Árásarmaður var farinn af vettvangi þegar lögreglu bar að garði en þolandi enn á staðnum. Málið er til rannsóknar hjá lögreglu.

Þá stöðvaði lögregla ökumann í Hafnarfirði um klukkan hálf eitt. Ökumaðurinn reyndist aka stolinni bifreið og er jafnframt grunaður um akstur undir áhrifum fíkniefna auk þess sem hann hafði ekki tilskilin ökuréttindi. Ökumaður og farþegi bifreiðarinnar eru einnig grunaðir um vörslu fíkniefna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×