Erlent

Meiriháttar björgunaraðgerðir halda áfram í Japan

Kjartan Kjartansson skrifar
Lögreglumenn leita að týndu fólki í Nagano þar sem stífla brást og vatn úr Chikuma-ánni flæddi yfir íbúðarhverfi.
Lögreglumenn leita að týndu fólki í Nagano þar sem stífla brást og vatn úr Chikuma-ánni flæddi yfir íbúðarhverfi. Vísir/EPA
Á annað hundrað þúsund björgunarfólks tekur nú þátt í leit og björgun eftir að fellibylurinn Hagibis olli eyðileggingu í Japan á laugardag. Bylurinn var sá versti í sextíu ár. Að minnsta kosti 37 fórust og tuttugu er enn saknað.

Hagibis hefur nú veikst og stefnir frá landi. Hann olli eyðileggingu í átta héruðum Japans og náði vindstyrkurinn um 62 metrum á sekúndu.

Lögreglufólk, slökkviliðsfólk, strandgæsluliðar og hermenn reyna nú að ná til fólks sem er innlyksa af völdum aurskriðna og flóða, að sögn breska ríkisútvarpsins BBC. Skrifstofa forsætisráðherra segir að björgunarliðið einbeiti sér að húsum sem eru einangruð vegna flóða og að finna fólk sem ekkert hefur spurst til.

Rúmlega 90.000 heimili eru enn sögð án rafmagns og 120.000 eru án vatns.

Úrhellisrigning fylgdi Hagibis. Meira en metri úrkomu féll í bænum Hakone og hefur hún aldrei mælst meiri í Japan á 48 klukkustundum. Svo mikil var úrkoman að tíu háhraðalestir möruðu í hálfu kafi í brautarstöð í Nagano. Hver lest er metin á um 30 milljónir dollara, jafnvirði um 3,7 milljarða íslenskra króna.


Tengdar fréttir

Búa sig undir kraftmesta fellibyl síðustu 60 ára

Japanir búa sig nú undir að fellibylurinn Hagibis komi að ströndum landsins, en fellibylurinn er sá kraftmesti sem sést hefur í Japan í 60 ár. Gert er ráð fyrir að veðurofsinn skelli á landinu rétt fyrir utan Tókýó síðar í dag.

Sterkur fellibylur stefnir að Japan

Fellibylurinn er nú fimm að stærð en veikist að líkindum áður en hann kemur að stærstu og fjölmennustu eyju Japans um helgina.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×