Lögreglan í Noregi hefur staðfest að blóð úr Anne-Elisabeth Falkevik Hagen hefur fundist á heimili þeirra hjóna í Lørenskógi. Að sögn Tommy Brøske lögreglustjóra er blóðið ekki talið vera grunsamlegt í ljósi þess að hún bjó á heimilinu.
Í samtali við norska dagblaðið VG sagði Brøske lögregluna rannsaka blóðið í von um að það gefi þeim frekari upplýsingar um hvað hefur orðið um Anne-Elisabeth, en ekkert hefur spurst til hennar frá því hún hvarf af heimili sínu og eiginmanns hennar, norska milljarðamæringsins Tom Hagen, í lok október á síðasta ári. Lögreglan hefur gefið það áður út að hún gangi út frá því að Anne-Elisabeth sé látin.
Sjá einnig: Telja að mannránið hafi verið sviðsett til að hylma yfir slóð morðingja
„Við getum staðfest að það hefur fundist lítið magn af blóði úr Anne-Elisabeth á heimilinu. Ég hef ákveðið að tjá mig um það núna til þess að koma í veg fyrir frekari vangaveltur. Fundurinn er ekki sérstaklega sláandi í ljósi þess að hún bjó þar,“ sagði Brøske í samtali við VG.
Í september staðfesti lögreglan að rannsóknin beindist nú einna helst að umslagi og pappírsörk sem fannst á heimili þeirra hjóna en mannræningjarnir skildu eftir bréf á vettvangi þar sem þeir kröfðust milljóna í lausnargjalds í órekjanlegri rafmynt. Þar hótuðu þeir einnig að birta myndband af aftöku Anne-Elisabeth.
Fundu blóð úr Anne-Elisabeth á heimilinu

Tengdar fréttir

Lögregla beinir sjónum sínum að pappírsörk og umslagi
Lögregla í Noregi hefur staðfest að rannsókn á hvarfi Anne-Elisabeth Hagen, einnar ríkustu konu Noregs, beinist m.a. að umslagi og pappírsörk sem fannst á heimili hennar í Lørenskógi þaðan sem hún hvarf í október í fyrra.

Hótuðu að birta myndband af aftöku Anne-Elisabeth
Þetta er í fyrsta sinn sem Tom Hagen upplýsir um það sem fólst nákvæmlega í hótunum mannræningjanna. Farið var fram á lausnargjaldið í bréfi sem þeir skildu eftir á heimili Hagen hjónanna daginn sem Anne-Elisabeth hvarf.

Lögregla telur enn að Anne-Elisabeth hafi verið myrt
Lögregla í Noregi gengur enn út frá því að Anne-Elisabeth Hagen, ein ríkasta kona Noregs sem hvarf af heimili sínu í október í fyrra, hafi verið myrt.