Innlent

Beggi á Húsavík fór niður og hékk í spottunum

Jakob Bjarnar skrifar
Beggi fór niður í nótt en er kominn á flot aftur.
Beggi fór niður í nótt en er kominn á flot aftur. Guðbergur R. Ægisson Húsavík
Beggi á Húsavík, sem var bundinn við bryggju, fór niður í nótt. Sökk. Að sögn hafnarstjórans Þóris Arnar Gunnarssonar þá hékk hann í spottunum þegar þeir komu að í morgun.

„Þetta er gömul timburtrilla,“ segir Þórir Örn og er ekki að missa sig vegna þessa. En, segir þetta merkilegan bát þó ekki sé hann í útgerð. Einn af allra síðustu móhíkönunum. Hann var gerður upp og er annar sinnar tegundar.

Trillan var hífð upp og svo var sjónum dælt úr.Guðbergur R. Ægisson Húsavík
Veður var með kyrrum kjörum þannig að líklega hefur komið upp leki. En það mál er allt til rannsóknar. Á Húsavík eru menn nú búnir að hífa hann upp og hafa menn verið að dæla úr honum í dag. Björgunarsveitin Garðar á Húsavík mætti með þrjár öflugar sjódælur til að tæma sjó úr bátnum.

„Við drógum hann upp í upptökubrautina hjá okkur. Settum svo dælur í hann. Hann er kominn á flot. Hér er allt með kyrrum kjörum,“ segir hafnarstjórinn og lætur sér hvergi bregða.

Beggi er gamall timburbátur sem gerður var upp í fyrra.Guðbergur Ægisson



Fleiri fréttir

Sjá meira


×