Bjarni mælti einnig fyrir frumvarpinu í fyrra en það hlaut ekki afgreiðslu. Nú leggur hann það fram öðru sinni en þó með breytingum sem taka mið af nefndaráliti meirihlutans í efnahags- og viðskiptanefnd Alþingis.
Oddný Harðardóttir, þingmaður Samfylkingarinnar, er þó þeirrar skoðunar að frumvarpið hafi ekki verið unnið í nægilegri sátt við efnahags- og viðskiptanefnd. Hún las upp brot úr ræðu Bjarna frá því fyrra þar sem hann sagði þverpólitíska sátt verða ríkja um sjóðinn.
„Síðan kemur hæstvirtur ráðherra nú og leggur nánast sama mál fram, tekur örlítið tillit til meirihlutaálits en þegar málið var afgreitt úr efnahags- og viðskiptanefnd í vor var það gert með fjórum nefndarálitum og algjörlega ljóst að það er engin sátt um þessa leið. Ég vil spyrja hæstvirtan ráðherra hvort hann hafi skipt um skoðun á því að það sé mikilvægt að það sé þverpólitísk sátt um sjóðsöfnun sem þessa,“ spurði Oddný og beindi máli sínu til Bjarna.

„nei ég tel að það eigi við um sjóð eins og þennan með svipuðum hætti og aðrar varrúðarráðstafanir sem ég hef verið að rekja hér í dag að það er langbest að það skapist sem mest sátt í þinginu enda hef ég verið að rekja það hér að áður en til þess gæti komið að hámarkssöfnun inn í sjóðinn er náð þá líði jafnvel fimmtán, tuttugu ár.
Það gefur þess vegna augaleið að það er ekki verið að horfa til einhvers sem á að gerast í einni hendingu heldur yfir mörg kjörtímabil og af þeirri ástæðu alveg augljóst að það skiptir máli að ná sem bestri sátt. Hins vegar kann að vera að einhverjir vilji gera ágreining og mér finnst að margt af því sem nefnt hefur verið til andmæla þessum hugmyndum sé hreinlega á misskilningi byggt,“ sagði Bjarni á Alþingi.