Körfubolti

Haukar, KR og Valur áfram í Geysisbikarnum

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Kiana Johnson var best hjá Val.
Kiana Johnson var best hjá Val. vísir/bára
Úrvalsdeildarliðin Haukar og Valur tryggðu sér farseðil í 8-liða úrslit Geysisbikars kvenna í körfubolta með því að fara út á land og vinna nokkuð örugglega.

Valskonur heimsóttu annað úrvalsdeildarlið þar sem þær héldu í Stykkishólm og léku gegn Snæfelli. Leikurinn var jafn og spennandi en Valskonur höfðu eins stigs forystu í hálfleik.

Í þriðja leikhluta voru Valskonur mun öflugri og lögðu þar með grunninn að sigri en fór að lokum svo að Valur vann sjö stiga sigur, 62-69. Kiana Johnson atkvæðamest í liði gestanna með 21 stig á meðan Emese Vida var langbest heimakvenna með 20 stig og 23 fráköst.

Á sama tíma heimsóttu Haukakonur B-deildarlið Tindastóls og er óhætt að segja að sá leikur hafi aldrei náð að vera spennandi þar sem Hafnfirðingar leiddu með 13 stigum eftir fyrsta leikhluta.

Fór að lokum svo að Haukar unnu 67 stiga sigur, 59-126. Jannetje Guijt stigahæst hjá Haukum með 21 stig á meðan Tessondra Williams skoraði jafn mikið fyrir Stólana.

Þá vann KR nítján stiga sigur á Fjölni í Reykjavíkurslag, 60-79, þar sem Danielle Rodriguez var stigahæst KR kvenna með 18 stig en Heiða Hlín Björnsdóttir gerði 19 stig fyrir Fjölni.

 

 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×