Skoðun

Að leggja raflínur í jörð

Þorsteinn Gunnarsson skrifar

Veðurhamfarir urðu á Norður- og Norðausturlandi snemma haustið 2012 þar sem miklar óveðursskemmdir urðu í Mývatnssveit. Brotnuðu um 100 staurar, rafmagnslaust var í allt að fjóra sólarhringa og aðstæður hinar erfiðustu. 

Brugðist var hratt við til að koma rafmagni aftur á til notenda. Gripið var til þess ráðs að leggja jarðstreng ofanjarðar til bráðabirgða og honum komið í jörð seinna um haustið. Með þeirri framkvæmd var loftlínukerfið í Mývatnssveit aflagt en í staðinn lagðir þriggja fasa jarðstrengir og svæðið ljósleiðaravætt í leiðinni sem var framsýni. 

Í óveðurshvellinum í síðustu viku nutum við góðs af því að nánast allar raflínur eru í jörð, rafmagnið hékk inni allan tímann og svo er hægt að grípa til gufustöðvarinnar í Bjarnaflagi ef allt fer á versta veg sem er okkar varaafl.

Að leggja raflínur í jörð þar sem því er viðkomið er fjárfesting sem borgar sig, það geta Mývetningar vitnað um.

Í Mývatnssveit er víða lítill jarðvegur og því þurfti að grafa jarðstrenginn niður í hraun á köflum í stað þess að plægja hann. Vissulega fylgir því talsvert jarðrask en það er hægt að lágmarka með vönduðum vinnubrögðum og tíminn læknar sárin. Með greininni fylgir samsett mynd frá Grænavatni í Mývatnssveit eftir slíka aðgerð, tekin með 5 ára millibili (mynd af heimasíðu Rarik).

Tíminn læknar sárin.RARIK

Eyðum nú ekki allri orkunni í að finna sökudólga á víxl vegna afhendingaöryggisleysis raforku. Búið er að margbenda á þetta í mörg án markvissra aðgerða. Nú þarf að láta hendur standa fram úr ermum eða um leið og óvissustigi hefur verið aflétt og raforkuflutningur tryggður eftir veðurhvellinn í síðustu viku.

Höfundur er sveitarstjóri Skútustaðahrepps




Skoðun

Sjá meira


×