Rafmagnslaust er í Skagafirði og þá leysti aðveitustöðin í Hrútatungu út aftur í nótt. Vonast er til að rafmagnið komist fljótt á aftur í Skagafirði en svo virðist sem viðgerðum sé lokið í Hrútafirði. Þá er einnig rafmagnslaust í Blöndudal og Svartárdal. Fréttastofu hafa borist ábendingar í morgun frá íbúum á Sauðárkróki sem vöknuðu í rafmagnsleysi í morgun. Jafnframt er rafmagnslaust á Hofsósi en íbúar svæðisins sem hafa fengið rafmagn beint úr Varmahlíð virðast hafa sloppið. Engar upplýsingar hafi borist bæjarbúum um hvað rafmagnsleysið mun standa lengi yfir.
Ekki er vitað hvað veldur fyrrnefndu rafmagnsleysi í Skagafirði en þar segjast starfsmenn Rarik vinna að því að „byggja upp kerfið.“ Viðgerðarflokki Rarik tókst jafnframt að koma rafmagni á Langadal og hluta Svartárdals í gærkvöldi. Bilanaleit verður tekin upp aftur í birtingu.
Sjá einnig: Tilkynnt um fleiri rafmagnstruflanir á Norðurlandi
Ekki hefur náðst á bilanavakt Rarik í morgun en að sögn Ríkisútvarpsins hafði bilunin í Hrútafirði víðtæk áhrif á notendur; í Miðfirði, Bitrufurði, hluta Reykhólasveitar, á Laugarbakka, Vatnsnesi og víðar. Svo virðist sem tekist hafi að koma aftur á rafmagni á þessu svæði núna klukkan sjö, ef marka má vefsíðu Rarik.
Þar að auki var rafmagnslaust um tíma á Hvammstanga sem er þó ekki sagt hafa staðið lengi. Ekki er þó útilokað að enn kunni að votta fyrir rafmagnstruflunum, jafnvel rafmagnsleysi, í litlum hluta bæjarins.
Í tilkynningu frá Landsneti er sagt að gera megi ráð fyrir einhverri truflun á afhendingu rafmagns meðan enn sé unnið að viðgerðum á dreifikerfinu. Jafnframt megi búast við skömmtun á rafmagni, nú þegar atvinnulífið fer aftur af stað eftir helgina. Rarik biðlar jafnframt til fólks sem tengt er varaafli að spara rafmagn eins og kostur er.
Fréttin var uppfærð kl. 7:10