Sport

Sjáðu Söru komast upp í toppsætið með því að lyfta 112 kílóum skælbrosandi

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Sara Sigmundsdóttir fer hér upp með 112 kíló
Sara Sigmundsdóttir fer hér upp með 112 kíló Mynd/Fésbókarsíða Dubai CrossFit Championship

Sara Sigmundsdóttir jafnaði sitt persónulega met í jafnhendingu í Dúbaí í gær og vakti mikla athygli fyrir að gera það með bros á vör.

Sara Sigmundsdóttir kemur inn í þriðja daginn á Dubai CrossFit Championship með fleiri stig en allir aðrir keppendur í kvennaflokki þökk sé frammistöðu sinni í fjórðu greininni í gær.

Fyrsti dagurinn endaði ekki alveg nógu vel hjá Söru sem datt niður í fimmta sætið. Hún var aftur á móti á heimavelli í ólympsku lyftingunum.

Sara hafði áður lyft 105 og 110 kílóum og fékk eina tilraun í viðbót. Hún ákvað að hækka upp í 112 kíló. Sara lyfti þessari miklu þyngd með glæsibrag og það var ekki að sjá annað en að hún eigi meira inni. Sara þurfti hins vegar ekki meira til að tryggja sér sigur í greininni og hundrað stig.

Sara er með 332 stig eða fjórum stigum meira en hin breska Samantha Briggs sem er í öðru sæti. Það eru síðan ellefu stig niður í þriðja sætið þar sem er Karin Frey frá Slóvakíu.

Keppnin heldur áfram í dag en þá fara fram þrjár greinar.

Hér fyrir neðan má sjá hvernig íslenska CrossFit stjarnan lyfti þessum 112 kílóum og brosti út að eyrum í leiðinni.




Tengdar fréttir

Björgvin segir að það sé stundum erfitt að æfa með Söru

Björgvin Karl Guðmundsson og Sara Sigmundsdóttir eru miklir og góðir félagar og æfa oft saman. Nú eru þau bæði komin alla leið til Dúbaí í Sameinuðu arabísku furstadæmunum þar sem þau eru að fara að keppa á Dubai CrossFit Championship sem hefst í dag.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×