Hér gefur að líta áhugavert myndband sem sýnir aðflug að Ísafjarðarflugvelli, sem er alræmt vegna beygjunnar sem flugmenn þurfa að taka í botni Skutulsfjarðar til að stýra flugvélinni upp í mótvind áður en lent er á vellinum.
Í upphafi myndbandsins má sjá Jónas Jónasson, flugstjóra hjá Air Iceland Connect, fara yfir þau atriði sem þarf að hafa í huga þegar flogið er til Ísafjarðar.
Segir hann flugmenn þurfa sérstaka þjálfun til að geta flogið til Ísafjarðar og að flugfélagið starfi á undanþágu frá evrópskum flugmálayfirvöldum, EASA.
Myndbandið var tekið fyrir nokkrum árum, þó ekki meira en tveimur þar sem sjá má sérstakan vegslóða í fjallinu Kubba í botni fjarðarins þar sem unnið var að uppsetningu snjóflóðavarna, en vegurinn var lagður árið 2017.
