Innlent

Gísli Marteinn lét skera krabbameinið burt og tók strætó heim

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Sjálfa sem Gísli Marteinn tók að bíða eftir strætó á leið heim frá lækninum.
Sjálfa sem Gísli Marteinn tók að bíða eftir strætó á leið heim frá lækninum. Gísli Marteinn Baldursson

Gísli Marteinn Baldursson sjónvarpsmaður greindist með grunnfrumukrabbamein í andliti í vor. Meinið var skorið burt skömmu síðar og hefur ekki bært á sér síðan. Þessu greinir Gísli Marteinn frá í fréttabréfi sem sent var á vini, vandamenn og aðra fylgjendur hans í gærkvöldi.

Gísli byrjar skeytið á því að biðja fylgjendur póstlistans um að hafa engar áhyggjur – hann sé alveg hraustur. Grunnfrumukrabbamein sé ekki lífshættulegt og raunar svo saklaust að það sé ekki tekið með í tölum um nýgengi krabbameins á Íslandi.

Grunnfrumukrabbamein er tegund húðkrabbameins og algengust þeirra meina í heiminum, að því er fram kemur í umfjöllun um þau á Vísindavefnum. Afar fáheyrt er að þau leiði til dauða og þau meinvarpast ekki.

„Ég var greindur með þetta í vor og húðlæknir skar meinið burt skömmu síðar og þegar ég fór aftur í tékk núna í desember var allt í þessu fína. Ég var hinsvegar ekkert að segja frá þessu þá, Vikan var ennþá í loftinu ég vildi ekki vera að búa til einhverja dramatík út af einhverju sem er ekki neitt neitt,“ skrifar Gísli Marteinn.

Þá lætur Gísli Marteinn fylgja mynd með skeytinu sem hann tók þar sem hann beið eftir strætó eftir að meinið var skorið burt.

„Strætó er alltaf góður, en aldrei betri en þegar er nýbúið að skera burtu krabbamein af nefinu.“

Það eru þó ekki aðeins heilsufarsvandamál sem rata í fréttabréf Gísla Marteins í ár heldur minnir hann á jólaþátt Vikunnar sem sýndur er á RÚV 27. desember næstkomandi. Þá fagnaði Kaffihús Vesturbæjar, sem Gísli Marteinn rekur ásamt félögum sínum, fimm ára afmæli í vor.

Gísli Marteinn greindi frá því í sambærilegu fréttabréfi í fyrra að hann hefði lagst und­ir hníf­inn á ár­inu og látið frysta raf­leiðslu við hjartað sem or­sakaði hjart­slátt­ar­köst, sem hon­um þóttu orðin þreyt­andi. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×