Erlent

Pútín við völd í tuttugu ár

Þórgnýr Einar Albertsson skrifar

Tuttugu ár eru liðin á morgun frá því Vladímír Pútín tók fyrst við embætti forseta Rússlands. Hann hefur stýrt landinu allar götur síðan þrátt fyrir stjórnarskrárákvæði um að forsetar megi ekki sitja lengur en tvö kjörtímabil í röð.

Pútín tók við starfinu af Boris Jeltsín á gamlársdag árið 1999. Fyrst sem starfandi forseti. Jeltsín hafði þá óvænt sagt af sér. Sem starfandi forsætisráðherra tók Pútín við starfinu.

Því hélt hann allt þar til 2008. Hafði þá setið tvö kjörtímabil og mátti ekki sitja fleiri í röð. Pútín varð því forsætisráðherra og Dmítríj Medvedev varð forseti. Stjórnmálaskýrendur halda því fram að Pútín hafi haft völdin í þessu sambandi hans og Medvedevs. Það sást árið 2012 þegar Medvedev steig til hliðar og bauð sig ekki fram gegn Pútín sem sneri aftur á forsetastól.

Andrej Kolesníkov, rannsakandi hjá bandarísku hugveitunni Carnegie Moscow Center, segir að Pútín hafi ekki tryggt Rússlandi lykilstöðu í alþjóðastjórnmálum. Landið gegni í staðinn því hlutverki að spilla starfi annarra ríkja. „Pútín hefur stöðvað þróun Rússlands sem ríki með markaðshagkerfi og hefðbundið lýðræði,“ sagði Kolesníkov.

Samkvæmt núgildandi stjórnarskrá ætti Pútín ekki að mega bjóða sig fram í næstu kosningum, enda aftur setið tvö kjörtímabil í röð. Hann virðist þó ekki á förum, ef marka má svar hans á blaðamannafundi fyrr í mánuðinum um fyrrnefnda takmörkun.

„Yðar auðmjúki þjónn þjónaði í tvö kjörtímabil í röð og steig svo til hliðar. Þá mátti hann bjóða sig aftur fram til forseta af því kjörtímabilin voru ekki lengur samfleytt. Þetta ákvæði lætur marga af okkar stjórnmálafræðingum hreinlega fara hjá sér. Því gæti verið breytt.“










Fleiri fréttir

Sjá meira


×