Skoðun

Við erum öll ferða­þjónusta - „Sjálfu-stöng” eða veiði­stöng?

Ýmir Björgvin Arthúrsson skrifar

Nú er tími til að líta í baksýnisspegilinn, læra af mistökum og vökva það sem vel var gert í ferðaþjónustu. Við höfum tvo skýra kosti: Áhersluna á „góða ferðamanninn“ sem kemur 100% á okkar forsendum eða fjöldaferðamennsku þar sem við breytum okkar siðum, menningu, mat og þjóð til að þóknast fjöldanum.

„Góður ferðamaður“ er oft í umræðunni sá sem skilar sem mestu fjármagni til þjóðarbúsins en það er aðeins einn þeirra eiginleika sem prýða „góðan ferðamann“.

Til að ferðamaður teljist „góður“ er jafn nauðsynlegt að hann skilji eftir góðar minningar hjá heimamönnum og bindist þeim jafnvel vinaböndum. Þessi góði ferðamaður sem fer sáttur heim til sín, kynnir land og þjóð, fyrir þeim sem við viljum helst fá, hann er okkar besta fjárfesting í framtíðinni.

Viljum við að áfangastaðurinn Ísland verði sniðinn af þörfum túrista með sjálfu-stangir eða viljum við kynna, markaðssetja og bjóða velkomna „góða ferðamenn“?

„Góðir ferðamenn“ forðast túrista eins og heitan eldinn. Því er ekki í boði að vera áfangastaður „allra“.

Í gjörbreyttu landslagi ferðaþjónustu er áhersla á sérstöðu áfangastaða í heiminum, eitt af því sem mestu máli skiptir. Það er eitt helsta verkefnið í samkeppni áfangastaða framtíðarinnar.

Það er einlæg ósk undirritaðs að okkur beri gæfa til að verðlauna alla þá „góðu ferðamenn“ sem hingað hafa komið og notið - á okkar forsendum. Hví ekki að virkja þá með okkur til kynningar á Íslandi, landi sem hreykir sér af sjálfbærri ferðaþjónustu til framtíðar, heimamönnum til hagsældar og hamingju ?

Hin leiðin – og vart til heilla – er að horfa til fjölda á ný, líkt og gert hefur verið flest öll ár í ferðaþjónustunni og einblína á vöxt og fjármagn. Markmiðið er þá að fylla landið af túristum með sjálfu-stangir og laga okkar siði og venjur að þörfum massa-túristanna – því nóg er jú til af þeim. Hér gæti Ísland til dæmis fyrst allra landa, opnað fyrir umferð risa skemmtiferðaskipa á ný og raðað lundabúðum í öll fámennu og fallegu þorpin okkar hringinn kringum landið, túristum einum til yndisauka.

Nýja Ísland - Sjálfu-stöng eða veiðistöng? Á okkar forsendum eða þeirra forsendum? Valdið er ráðamanna. – Guð blessi Ísland!

„Viljum við að áfangastaðurinn Í sland ver ði sniðinn af þörfum túrista með sjálfu-stangir eða viljum við kynna, markaðssetja og bjóða velkomna „góð a fer ðamenn”?

Höfundur er frumkvöðull og Gourmet Guide.




Skoðun

Sjá meira


×