Skoðun

Græðgi

Örn Sverrisson skrifar

Þann 5. maí, daginn eftir að sóttvarnalæknir sem með minnisblaði dagsett 19. apríl lagði til við heilbrigðisráðherra að óhætt væri að opna spilakassa Íslandsspila 4. maí fór ég á spilastað til að fanga ánægju og gleði notanda spilakassa með myndum svona eins og fjölmiðlar sýndu okkur og fjölluðu um daginn áður af gleði og ánægju fólks þegar byrjað var að draga úr samkomubanni.

Í stuttu máli var mér einfaldlega hent út og látinn vita að myndataka væri bönnuð á staðnum.

Auðvitað, ekki er þetta nú alveg sú starfssemi sem þú vilt vera að gorta þig af eða sýna enda eru notendur spilakassa ekki skælbrosandi, notendur spilakassa er veikt fólk í miklum meirihluta. Það fólk sem hefur verið að nota spilakassa til að leggja fram frjáls framlög til Rauða krossins, Landsbjargar og SÁÁ sem eru eigendur Íslandsspila voru EKKI að bíða eftir opnun spilakassa.

En afhverju, afhverju eru spilakassar opnaðir strax? Sundstaðir, líkamsrækt og ýmislegt annað lýðheilsu og efnahagsbætandi haldið lokuðu en spilakassar opnaðir og ekki eru þeir nú heilsueflandi og enn nú síður efnahagsbætandi nema þá fyrir eigendur Íslandsspila.

Geta eigendur Íslandsspila í alvörunni ekki sinnt þeirri samfélagsþjónustu sem þeir gera svo vel án veikra spilafíkla?

Samfélagsleg ábyrgð eiganda Íslandsspila hefði verið svo töff, svo falleg ef þeir hefðu ákveðið að ekki væri tímabært að opna spilakassanna og haldið þeim lokuðum áfram í einhvern tíma jafnvel þó að sóttvarnalæknir og heilbrigðisráðherra hafi gefið grænt ljós.

Nei, í staðinn létu Íslandsspil gera fyrir sig sprittbrúsa merkta Íslandsspil og einhverjar leiðbeiningar um að notendur spilakassa ættu að þrífa þá og sjálfan sig fyrir notkun. Getur græðgin tekið á sig aumari mynd?

Höfundi er annt um líf og heilsu spilafíkla.




Skoðun

Sjá meira


×