Fótbolti

Svíar mega skipuleggja æfingaleiki

Runólfur Trausti Þórhallsson skrifar
Arnór Ingvi er lykilmaður í liði Malmö.
Arnór Ingvi er lykilmaður í liði Malmö. Vísir/Getty

Sænska knattspyrnusambandið hefur ákveðið að hunsa tilmæli Íþróttasambands Svíþjóðar og leyfir nú æfingaleiki svo lengi sem ítrustu varúðar er gætt. Gaf knattspyrnusambandið út tilkynningu þess efnis fyrr í dag.

Er þetta þvert gegn öllum þeim tilmælum sem sænska Íþróttasambandið hefur gefið út. Það hefur óskað þess að allt íþróttastarf verði lagt niður á meðan Svíar, líkt og aðrar þjóðir, berjast við kórónuveiruna.

Svíar hafa sett á samkomubann þar sem ekki mega koma saman fleiri en 50 manns í einu. Það er ljóst að æfingaleikur milli tveggja fullmannaðra knattspyrnuliða myndi vera nálægt því að brjóta samkomubannið.

Keppni í efstu deildum Svíþjóðar átti að hefjast á nýjan leik nú í apríl en ljóst er að svo verður ekki. Óvíst er hvenær deilarkeppnin mun fara aftur á stað.

Í tilkynningu knattspyrnusambandsins segir að lokum að hlutirnir breytist hratt og ákvörðunin gæti því verið endurskoðuð fyrr heldur en seinna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×