Í dag komu niðurstöður úr 1.200 manna slembiúrtaki sem Íslensk erfðagreining gerði til að greina kórónuveirusmit í samfélaginu. Sex einstaklingar af þessum 1.200 reyndust smitaðir af kórónuveirunni.
Kári Stefánsson, forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar, sagði þegar hann var til viðtals í kvöldfréttum Stöðvar 2 nú í kvöld að hann liti ekki á þessar niðurstöður sem endanlegar tölur en von er á niðurstöðum úr öðru slembiúrtaki í dag og á morgun.
„Það lítur út fyrir að dreifing veirunnar í samfélaginu sé ekki að aukast, jafnvel að minnka, sem bendir til þess að aðgerðir þríeykisins séu að virka. Okkur sé að takast að hemja útbreiðslu veirunnar með því að elta uppi þá sem hafa verið nálægt þeim sem smitast og setja þá í sóttkví.“
Sjá einnig: Slembiúrtak Íslenskrar erfðagreiningar sýnir 0,3 prósent smit úti í samfélaginu
Kári var einnig til viðtals í Reykjavík síðdegis í dag þar sem hann kynnti niðurstöður slembiúrtaksins en þá átti enn eftir að greina um 250 sýni. Niðurstöðurnar sem hann kynnti þá voru þær að um 0,3 prósent þeirra sem voru í slembiúrtakinu hafi verið smitaðir af kórónuveirunni.