Karlmaður á sjötugsaldri lést í dag á Landspítalanum vegna COVID-19. Samkvæmt heimildum fréttastofu var maðurinn nýlega kominn úr öndunarvél þegar honum sló niður. Aðstandendur hans hafa greint frá andlátinu á samfélagsmiðlum.
Alls fimm hafa nú látist hér á landi af völdum COVID-19 sjúkdómsins sem kórónuveiran veldur.
Fyrst lést ástralskur ferðamaður á Húsavík þann 17. mars og svo rúmlega sjötug kona viku síðar á gjörgæslu á Landspítalanum. Síðasta fimmtudag var síðan tilkynnt um tvö andlát þar til viðbótar.
Annað þeirra var 75 ára eiginmaður konunnar sem hafði látist þann 23. mars. Var hann færður í öndunarvél þann 26. mars eftir að ástand hans hafði hríðversnað á stuttum tíma.
38 einstaklingar eru nú innlagðir á sjúkrahús vegna COVID-19 og þar af 12 á gjörgæslu. Átta eru nú í öndunarvél vegna sjúkdómsins á Landspítalanum.