Innlent

Blíðskaparveður um páskana

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Haraldur Ólafsson veðurfræðingur ræddi um páskaveðrið í beinni útsendingu í kvöld.
Haraldur Ólafsson veðurfræðingur ræddi um páskaveðrið í beinni útsendingu í kvöld. skjáskot

Það verður bara hið ágætasta veður um páskana, að sögn Haraldar Ólafssonar veðurfræðings. Það verði „að meðaltali þokkalegt,“ eins og hann komst að orði í beinni útsendingu í kvöldfréttum Stöðvar 2.

„Það verður líklega ljómandi veður á morgun. Á föstudaginn er nú útlit fyrir að hann verði austanstæður, verði víða stinningskaldi og rigning á láglendi víða um land nema helst fyrir norðan,“ segir Haraldur.

Það muni þó líklega stytta upp eftir því sem líður á laugardaginn - „og eftir það verður þetta bara blíðskaparveður það sem eftir lifir laugardags og á páskadag,“ segir Haraldur.

Hann telji því að Íslendingar muni ekki þurfa að þola gular viðvaranir um helgina. „Þetta lítur nú ekki svo skuggalega út, þetta eru vorlegar lægðir sem eru hérna.“

Það verði þó ákveðin sunnan- eða suðvestanátt á annan í páskum. Henni muni fylgja hlýindi og rigning sunnantil á landinu.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á föstudag (föstudagurinn langi):

 Gengur í suðaustan 8-15 m/s með rigningu eða slyddu. Hægari vindur og bjart veður á N- og A-landi. Hlýnandi, hiti 1 til 6 stig síðdegis.

Á laugardag:

Austan- og síðar norðaustan 5-13 m/s. Dálítil rigning S-til í fyrstu, annars skýjað en úrkomulítið. Hiti 0 til 8 stig, mildast S-lands en frystir víða um kvöldið.

Á sunnudag (páskadagur):

Suðlæg átt og skýjað en úrkomulítið. Hiti 0 til 7 stig, en vægt frost á NA- og A-landi.

Á mánudag (annar í páskum) og þriðjudag:

Suðvestanátt með vætu og hlýnandi veðri, en þurrt NA- og A-lands.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×