Franski varnarmaðurinn Dayot Upamecano verður einn eftirsóttasti leikmaður heims þegar opnað verður fyrir félagaskipti í sumar.
Heimildir Sky Sports herma að bæði Manchester United og Manchester City séu þegar byrjuð að undirbúa tilboð í þennan 21 árs gamla miðvörð sem hefur sýnt frábæra takta hjá þýska úrvalsdeildarliðinu RB Leipzig.
Bayern Munchen, Real Madrid og Barcelona þykja einnig áhugasöm.
Upamecano hóf að leika fyrir Leipzig í Bundesligunni 17 ára gamall en þá hafði hann þegar leikið eitt tímabil með RB Salzburg í Austurríki.
Talið er að mörg félög muni lenda í fjárhagsvandræðum í kjölfar kórónaveirufaraldursins en RB Leipzig er ekki eitt af þeim liðum. Hins vegar á Upamecano bara eitt ár eftir af samningi sínum við félagið og er með riftunarákvæði í samningi sínum upp á 50 milljónir punda.