Sport

Katrín Tanja fær að keppa á heimsleikunum eftir allt saman

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Katrín Tanja Davíðsdóttir fékk gleðifréttir frá Dave Castro og verður með á heimsleikunum í haust.
Katrín Tanja Davíðsdóttir fékk gleðifréttir frá Dave Castro og verður með á heimsleikunum í haust. Instagram/katrintanja

Það er enn talsverð óvissa í kringum heimsleikana í CrossFit í haust en forráðamenn CrossFit samtakanna ætla að gera allt sem þarf til að leikarnir falli ekki niður í ár.

Eftir frétt Vísis í morgun um hvernig Dave Castro, yfirmaður CrossFit leikanna, rökstuddi þá ákvörðun sína að skera niður keppendahópinn með slæmum afleiðingum fyrir CrossFit fólk, þá fékk Vísir senda inn þá gleðifrétt að Katrín Tanja hafi verið tekin inn í keppendahópinn á Aromas búgarðinum.

Katrín Tanja var næst inn af þeim sem voru ekki með keppnisrétt í kvennaflokki eftir árangur sinn á The Open í vetur og samkvæmt áreiðanlegum og glænýjum heimildum Vísis þá fékk hún þær fréttir frá Dave Castro í fyrradag að hún yrði með á leikunum í haust.

CrossFit samtökin hafa ekki enn staðfest breytingar á þátttökuhópnum sínum en það má búast við staðfestum keppendahóp sem fyrst. Keppendur eiga að vera þrjátíu af hvoru kyni og það verður engin liðakeppni eða keppni í aldursflokkum.

CrossFit fjölmiðillinn Morning Chalk up birti boðslistann eftir tilkynningu Dave Castro en samkvæmt nýjum heimildum Vísis þá hafa orðið breytingar á honum. Keppendur þurftu að staðfesta þátttöku eða ekki og þar hefur losnað sæti fyrir Katrínu Tönju.

Katrín Tanja Davíðsdóttir er tvöfaldur heimsmeistari í CrossFit og ein stærsta stjarna og sendiherra CrossFit heimsins eftir viðburðaríkt ár þar sem hún kom meðal annars fram fyrir sína íþrótt tvisvar sinnum hjá ESPN, bæði í Body Issue ESPN sem og á ráðstefnu ESPN um kvennaíþróttir. Það eru því góðar fréttir fyrir alla að íslenska CrossFit stjarnan fái að vera með á leikunum í ár.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×