Fjórir ökumenn voru stöðvaðir af lögreglu í nótt grunaðir um ítrekaðan akstur sviptir ökuréttindum. Fram kemur í dagbók lögreglu að tveir þeirra hafi einnig verið grunaðir um akstur undir áhrifum fíkniefna. Þá voru sex ökumenn stöðvaðir sem grunaðir voru um akstur undir áhrifum áfengis og/eða fíkniefna í gærkvöldi og nótt.
Einn þeirra var í mjög annarlegu ástandi og hlýddi ekki fyrirmælum lögreglu. Hann var vistaður í fangageymslu lögreglu þar til ástand hans batnaði.
Þá var bifreið stöðvuð í Garðabæ laust eftir miðnætti sem reyndist vera ótryggð og voru skráningarnúmer hennar í kjölfarið klippt af.