Fótbolti

„Man Utd vantar leikmann eins og Werner“

Arnar Geir Halldórsson skrifar
Timo Werner fagnar marki í dag.
Timo Werner fagnar marki í dag. Vísir/Getty

Owen Hargreaves, fyrrum leikmaður Man Utd, Bayern Munchen og enska landsliðsins, segir þýska markahrókinn Timo Werner þurfa að vanda valið þegar kemur að því að velja sér nýtt lið en talið er líklegt að hann muni yfirgefa RB Leipzig í sumar.

Liverpool ku vera áhugasamt um kappann en Hargreaves telur að þessi 24 ára framherji myndi ekki fá nægan spilatíma á Anfield.

„Hann myndi ekki verða tekinn fram yfir Bobby Firmino. Ég held að það sé málið. Sama hvert hann fer verður hann að fá að spila. Eins og Man Utd spilar þá gæti ég séð hann þar. Þeim vantar níu,“ segir Hargreaves.

„Chelsea gæti líka hentað honum vel. Ég held að hann sé fullkominn fyrir Liverpool að sumu leyti en hann mun ekki eiga fast sæti þar. Ef hann er sáttur við minni spilatíma þá væri hann auðvitað frábær kostur fyrir Jurgen Klopp.“

Werner skoraði þrennu í stórsigri Leipzig á Mainz í þýsku úrvalsdeildinni í dag og er næstmarkahæsti leikmaður deildarinnar með 24 mörk, þremur mörkum minna en Robert Lewandowski hjá Bayern Munchen.

„Hann leggur hart að sér, er góður markaskorari og góður liðsfélagi. Það geta allir notað svona mann en ég sé hann ekki slá Firmino úr liðinu. Hann er of mikilvægur fyrir Liverpool liðið,“ segir Hargreaves.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×