Íslenska CrossFit drottningin Sara Sigmundsdóttir hefur titil að verja á Dubai CrossFit Championship 2020 en þarf að verja hann á bæði óvenjulegan hátt og á óvenjulegum tíma.
Forráðamenn Dubai CrossFit mótsins, sem fer vanalega fram í desember, ákváðu að færa mótið fram um hálft ár og og breyta því í keppni á netinu.
Allt kemur þetta til vegna ástandsins vegna kórónuveirunnar og þetta netmót er náttúrulega ekki fullgilt mót enda gefur það sigurvegaranum ekki sæti á heimsleikunum 2021 eins og hitt hefði gert.
Sara Sigmundsdóttir vann hins vegar mótið sem var haldið í Dúbaí í desember 2019 og hún ætlar sér örugglega að reyna að vinna Dubai CrossFit Championship 2020 Online Challange líka.
Þetta er líka um leið langþráð keppni fyrir margar af CrossFit stjörnunum sem hafa beðið af sér kórónuveirufaraldinn eins og við hin og Sara ákvað að skrá sig til leiks eins og fleiri öflugar íþróttakonur.
Sara er efst eftir fyrstu greinina af þremur en keppendur þurfa að skila einni æfingu á viku næstu þrjár vikur.
Sara náði bestum árangri í fyrstu greininni sem var „Alternating Single Arm Devil Press“ en þar áttu keppendur að ná eins mörgum endurtekningum og þeir gátu á tíu mínútum. Keppendum áttu þá að leggjast á jörðina og skiptast síðan á því að lyfta sextán kílóa ketilbjöllu með annarri hendinni.
Sara náði alls 142 endurtekningum eða jafnmörgum og hin kanadíska Carolyn Prevost og einni fleiri en Samantha Briggs.
Björgvin Karl Guðmundsson tekur þátt í karlakeppninni og er í 9. sæti eftir fyrstu grein. Þar er efstur Rússinn Alexander Ilin og landi hans Stas Solodov er í öðru sæti.
Það er til mikils að vinna en sigurvegarinn fær tíu þúsund Bandaríkjadali eða 1,42 milljónir í íslenskum krónum.
Í þessari viku er síðan komið að næstu grein á mótinu sem er „Box Jump Step Down/Single Arm Dumbbell Thruste“ en þar vinna keppendur aftur með ketilbjölluna en nú með því stíga upp á kassa.